Hvernig getur þú haft áhrif á gang mála á Alþingi?

  Kynntu þér málin

 • Þú getur kynnt þér þingskjöl og ræður og fylgst með stöðu þingmála á vef Alþingis.
 • Þú getur lesið samantektir um valin þingmál á vef Alþingis.
 • Þar eru settar fram í stuttu máli upplýsingar um þingmál og tengt í ítarefni til nánari útskýringar.

Taktu þátt

Hafðu áhrif með þátttöku í starfi stjórnmálaflokks. Hafðu áhrif með þátttöku í starfi stéttarfélags, hagsmunasamtaka eða áhugamannasamtaka.

  Mættu

  • Þú getur mætt á þingpalla og fylgst með umræðum.

Skrifaðu

Hafðu áhrif með því senda inn skriflega umsögn um mál sem eru til meðferðar hjá þingnefndum. Hafðu áhrif með skrifum í fjölmiðla og með því gefa fjölmiðlafólki ábendingar.

  Kjóstu

  • Hafðu áhrif með því að neyta kosningarréttar þíns.

Hafðu samband

Hafðu áhrif með því hafa samband við alþingismenn eða þingnefndir, netföng þeirra eru á vef Alþingis. Hafðu áhrif með því hafa samband við sveitarstjórnarmenn og aðra sem gegna ábyrgðarstörfum í heimabyggð.

  Horfðu á

  • Þú getur fylgst með beinni útsendingu frá þingfundum og opnum nefndarfundum á vef Alþingis.

  Einnig er bein útsending á Alþingisrás RÚV frá því þingfundur hefst þar til regluleg sjónvarpsdagskrá hefst. Standi þingfundur lengur er honum sjónvarpað morguninn eftir. Sjónvarpað er óslitið frá þingfundum og opnum nefndarfundum á Alþingisrásinni á dreifikerfum Digital Íslands, Vodafone og Símans.

Leiðbeiningar fyrir gesti á nefndarfundum Alþingis

Á Alþingi eru nánast daglega haldnir nefndarfundir þar sem rædd eru ýmis málefni. Þessi málefni verða oft að samþykktum lögum á Alþingi sem við síðan fylgjum í íslensku samfélagi. Algengt er að nefndirnar fái fólk utan þingsins, sérfræðinga og hagsmunaaðila, á fundi sína. Tilgangurinn er að fræðast af þeim um málefni sem til umræðu er auk þess sem hagsmunaaðilum er gefinn kostur á að kynna sjónarmið sín. Þegar tekin eru fyrir málefni sem snúa að börnum og unglingum þá er gjarnan leitað til þeirra og óskað eftir þeirra sýn á málin. Þannig er hægt að hafa áhrif á framvindu ýmissa mála sem tekin eru fyrir á Alþingi.

Hvernig fer dæmigerður nefndarfundur fram?

 • Formaður nefndar stýrir fundi og setur fund (segir: „Fundur settur í …. nefnd“).
 • Ekki má tala á fundi nema að fá leyfi formanns til þess og hafa fengið merki um að mega taka til máls. Formaður heldur mælendaskrá sem er listi yfir þá sem vilja tjá sig um viðkomandi mál.
 • Dagskrá funda er fyrirframákveðin en formaður getur gert breytingar á henni þar sem hann fer með dagskrárvaldið.
 • Tímasetningar eru fyrirframákveðnar og mikilvægt er að virða tímamörk.
 • Mál á dagskrá fundar eru fyrirframákveðin. Formaður getur tekið fyrir önnur mál undir þeim lið á dagskrá og aðrir nefndarmenn geta einnig tekið upp önnur mál eða óskað eftir að þau verði tekin fyrir á fundi í nefndinni.
 • Formaður nefndar ákveður hvort málin eru rædd eða tekin fyrir á næsta fundi eða síðar – en yfirleitt gerir formaður það í samkomulagi við nefndarmenn.

Spurningar og svör um nefndarfundi

1. Hvernig kemst ég á nefndarfundi? Hverjir eru valdir þangað? Hvers vegna er kallað á börn eða unglinga á fundina?

Allir sem telja sig hafa hagsmuni af máli sem er til meðferðar á Alþingi geta sent þingnefndum erindi og beðið um að fá að koma á fund vegna viðkomandi máls. Formaður stýrir fundum nefnda en almennt eru það þingnefndirnar sjálfar sem ákveða hverja þær fá á fund. Þeir sem nefndir óska eftir að fá til sín á fundi eru þeir sem nefndirnar telja að geti upplýst mál og aðstoðað þannig við vinnslu þeirra mála sem nefnd hefur til umfjöllunar. Það eru hagsmunaaðilar, sérfræðingar og aðrir sem tengjast máli. Oft fá nefndir aðila úr ungmennaráðum á fundina. Hlutverk nefnda er að fara yfir mál með gagnrýnum hætti og tryggja gæði þeirra mála sem þær leggja til að Alþingi samþykki. Börn og unglingar geta verið hagsmunaaðilar, þ.e. haft hagsmuni af málum sem eru til umfjöllunar í nefndum.

2. Til hvers er ætlast af mér á fundinum? Hvernig á ég að undirbúa mig? Þurfa gestir á nefndarfundum að vera tilbúnir með einhverjar spurningar?

Gestir sem koma á nefndarfundi eru kallaðir til vegna sérþekkingar sinnar, reynslu eða skoðana á því máli sem verið er að ræða. Markmiðið er að upplýsa mál þannig að nefndarmenn/þingmenn geti myndað sér skoðun á málinu. Ef gestir eru á fundi býður formaður þá velkomna og býður þeim að kynna sig og segja frá fyrir hverja þeir koma á fund eða eru fulltrúar fyrir (stofnun, samtök, fyrirtæki – eða sem sérfræðingar).

Því næst er þeim boðið að kynna sjónarmið sín um málið sem er til umfjöllunar – t.d. umsögn um þingmál. Næst býður formaður nefndarmönnum að spyrja gesti spurninga en þeir hafa þá gefið formanni merki um að þeir vilji fá orðið. Allir nefndarmenn sem hafa beðið um orðið fá að spyrja spurninga og gestir safna spurningum saman og punkta hjá sér. Þegar þeir fá orðið svara þeir öllum spurningunum sem hafa komið fram. Gestir spyrja því ekki spurninga. Nefndarmenn gera síðan grein fyrir skoðunum sínum á málum þegar þau eru til umræðu í þingsal.

3. Hvert mæti ég?

Fundir nefnda eru haldnir í Austurstræti 8–10, gengið inn frá Vallarstræti (Austurvelli). Húsið er beint á móti þinghúsinu og Skála Alþingis. Gestir geta mætt í Skála og fá þá leiðbeiningar um að fara yfir völlinn og hringja bjöllu sem er merkt 2. hæð nefndasvið.

4. Mun ég sitja allan fundinn?

Fundartíminn er ákveðinn fyrir fram og oft gert ráð fyrir 10–20 mínútum fyrir gesti sem koma frá svipuðum samtökum eða deila sýn á mál sem er til umfjöllunar.

5. Má ég spyrja á fundinum? Eru strangar reglur um hver má tala?

Gestir mega ekki spyrja nefndarmenn eða aðra gesti spurninga. Þeir geta þó gefið formanni merki um að þeir vilji koma einhverju að til viðbótar. Markmiðið með fundinum er að nefndarmenn fái þær upplýsingar sem þeir þurfa. Formaður heldur mælendaskrá og gefur þeim nefndarmönnum sem hafa beðið um orðið leyfi til að tala. Ef nefndarmenn hafa fleiri spurningar eða hafa ekki fengið svar getur formaður gefið þeim leyfi til að spyrja gestina aftur og þá fá gestir tækifæri til að svara þeim.

Þegar nefndarmenn hafa fengið svör við spurningum sínum er gestum þakkað fyrir komuna og þeir yfirgefa fundinn.

 

6. Hversu mikið fæ ég að vita fyrir fram um það sem rætt verður á fundinum?

Gestir fá ekki að vita fyrir fram hvaða spurninga þeir verði spurðir en þeir koma vegna ákveðins máls og svara eftir bestu getu. Í undantekningartilfellum er hægt að fá spurningar fyrir fram. Gott er að hafa í huga að ef spurningar vakna upp á fundum eða ef gestur man ekki svör við spurningu fyrr en eftir fundinn, er hægt að senda nefndum viðbótarupplýsingar og svör eftir að heim er komið.

7. Hversu margir eru vanalega á slíkum fundum?

Fyrir utan gesti eru nefndarmenn í hverri nefnd að jafnaði níu talsins, svo geta verið einn eða tveir  áheyrnarfulltrúar auk eins eða tveggja starfsmanna.

8. Eru einn eða fleiri gestir saman á fundinum?

Til að spara tíma er venjan að kalla saman á fund fulltrúa samtaka eða stofnana sem deila sýn á málefnið.

9. Eftir fundinn: Fæ ég að fylgjast með hvernig málin þróast?

Hægt er að fylgjast með málum á vef Alþingis, þ.e. hvort og hvenær þau eru afgreidd eða hvort nefndir skili skýrslu um mál.

10. Ef fleiri spurningar brenna á þér eða þér finnst eitthvað óljóst...

…er þér velkomið að hafa samband við fræðslustjóra.